Laugardalshöll

Laugardalshöll

Keppni í körfuknattleik mun fara fram í Laugardalshöll.

Keppni í blaki fer fram í frjálsíþróttasal Laugardalshallar.

Laugardalshöll er samtals um 20.000 m² og eitt stærsta íþrótta- og tónleikahús landsins. Höllin var teiknuð af Gísla Halldórssyni og Skarphéðni Jóhannessyni arkitektum árið 1959 og reist af Reykjavíkurborg og Íþróttabandalagi Reykjavíkur. Hún var vígð 6. desember árið 1965.

Höllin sjálf er um 6.500 m² og rúmar allt að 11.000 manns. Flestir landsleikir, stórleikir og stærri íþróttaviðburðir sem leiknir eru innanhúss fara fram í höllinni. Höllin hefur í gegnum tíðina hýst ýmsa stórviðburði eins og tónleika Led Zeppelin 1970, skákeinvígi Fischers og Spasskíjs 1972, Heimsmeistaramótið í handbolta 1995 og Eagles tónleika árið 2011.

Árið 2005 var hafist handa við að reisa 9.500 m² fjölnota sal, til frjálsíþrótta- og tónleikaaðstöðu auk ráðstefnuaðstöðu sem tengist við Laugardalshöllina. Þessi nýi frjálsíþróttasalur er besta innanhúsaðstaða landsins en þar eru einnig haldnir stærri tónleikar og sýningar.