Álfsnes og Hátún

Álfsnes og Hátún

Keppni í skotíþróttum fer fram í Álfsnesi og í Íþróttahúsi ÍFR í Hátúni.

Keppni í haglabyssu- og riffilgreinum fer fram í Álfsnesi.

Nýtt útiskotsvæði var opnað í Álfsnesi árið 2007. Skotsvæðið er heilsárssvæði og þar er aðstaða fyrir skammbyssu-, riffla- og haglabyssugreinar. Með opnun svæðisins er lagður grunnur að miðstöð fyrir alla þá sem stunda skotíþróttir og skotfimi hverskonar. Svæðið er hannað sem íþróttasvæði fyrst og fremst, en einnig er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir skotveiðimenn til æfinga og ekki síst aðstaða fyrir þá sem stunda skotfimi sem tómstundasport. Skotsvæðið er löglegt fyrir alþjóðamótahald og er stefnt að því að haldin verði hin ýmsu alþjóðaskotmót á svæðinu. 

Alls fjórir Skeetvellir ásamt Trap og Sportingvöllum eru á svæðinu á Álfsnesi. Riffilvöllur félagsins er einn sinnar tegundar á landinu, en nokkrar nýjungar eru á honum, m.a. í skotskýlinu og á skotbananum, með tilliti til öryggis og aðstöðu fyrir skotmenn. Riffilvöllurinn er einnig hannaður með það fyrir augum að Íslendingar geti haldið erlend mót í flestum riffil og skammbyssugreinum. Lengsta færi á riffilvellinum er 300 metrar.

 

Keppni í loftriffli og loftskammbyssu, fer fram í Íþróttahúsi ÍFR í Hátúni.

Íþróttahúsið var formlega tekið í notkun 1. september 1992. Margvísleg íþróttastarfsemi fatlaðra fer fram í húsinu og Endurhæfingarstöð Hjarta- og lungnasjúklinga er með alla sína starfsemi þar. Íþróttahúsið er 1.250 fermetrar. Aðal íþróttasalur er 18 x 32 metrar, auk þess er minni salur fyrir lyftingar og þrekþjálfun. Gólf íþróttasalarins er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, en við lagningu þess voru lögð sérstök lög sem eiga að draga úr meiðslum við æfingar og keppni.